Ég heiti Kristín Berta Guðnadóttir og elska náttúru og listsköpun. Ég er mikil fjölskyldukona, eiginkona, móðir, stjúpmóðir og fósturmóðir. Ég er menntuð sem félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur, jógakennari og Intentional Creativity Teacher (kennari í listsköpun með ásetningi). Ég hef hlotið þjálfun í EMDR áfallameðferð og lokið tveimur kennara námskeiðum í Mindful Art and Yoga. Auk þess hef ég sótt fjölda annarra námskeiða tengd meðferðarvinnu og listmeðferð. Einnig hef ég sótt mörg myndlistarnámskeið hjá mismunandi kennurum frá unglingsárum og til dagsins í dag og haldið tvær einkasýningar á eigin málverkum. Mér finnst fátt skemmtilegra en að læra eitthvað nýtt sem fellur að mínu áhugasviði og vil helst alltaf vera á einhverjum námskeiðum.
Ég hef unnið með börnum, unglingum, fullorðnum og fjölskyldum í gegnum erfiðleika, áföll og persónulegan þroska á sviði barnaverndar, heilbrigðis- og félagsþjónustu til margra ára.
Frá örófi alda hefur maðurinn skapað fyrir sálina, fyrir heilun og vöxt. Listsköpun hefur fært mig nær sjálfri mér og hjálpað mér í gegnum erfið tímabil, áföll og streitu og ég hef að auki notað listsköpun í meðferðarvinnu með góðum árangri fyrir þá sem hafa viljað prófa.
Ég stofnaði Sálarlist til að geta miðlað þessum áhuga til annarra. Ég veit að margir vilja mála en hafa aldrei þorað því og fara því á mis við frábær tæki og tól til að heila sig, takast á við streitu og göfga andann.
Hjá Sálarlist býð ég upp á ýmis námskeið þar sem listsköpun er notuð meðal annars til að efla sköpunarkraft þinn, auka sjálfstraust, setja niður ásetning um hvað þú vilt fá út úr lífinu, hlúa að sjálfinu, takast á við streitu og næra hjarta og sál. Námskeið hjá mér geta verið með ýmsu sniði. Ég nýti aðferðir úr öllu sem ég hef lært úr lífi, menntun og starfi til að kenna þér að þróa með þér hugarfar sem eflir sjálfstraust þitt í kringum listsköpun. Þannig getur þú smám saman lært að njóta þess að mála og kynnast þér betur í gegnum sköpun. Hjá mér lærir þú að nota listsköpun fyrir sálina, mála fyrir ferlið og sleppa tökum á útkomunni. Þú málar fyrst og fremst til að fá útrás fyrir sköpunarþrá, út frá barnslegri nálgun, gleði og forvitni. Þegar þú byrjar að kveikja á sköpunarkraftinum sem býr innra með þér á þennan hátt, hefur það tilhneigingu til að smitast yfir á fleiri þætti í lífinu og þú ferð að vera enn meira skapandi í lífi og starfi.