Námskeiðin eru fyrir alla! Mín ástríða er að rétta pensilinn þér sem hefur aldrei málað áður. Þér sem hættir öllu “kroti” í barnaskóla þegar þú fórst að bera þig saman við aðra og taldir að þú hefðir bara ekki “hæfileika” til að mála eða teikna.
Þú þarft ekki að hafa reynslu af að mála eða teikna (reynslumiklir geta þó líka haft mjög gaman af þessari nálgun). Það mega allir mála sem vilja og það geta það allir á sinn hátt. Ég leiði þig í gegnum allt ferlið skref fyrir skref.
Allt efni er innifalið á viðburðum sem þú mætir á í eigin persónu nema annað sé tekið fram. Þú þarft ekki að mæta með neitt nema góða skapið og opinn huga. Á rafrænu námskeiðunum færðu lista yfir þær myndlistavörur sem þú þarft að eiga.
Gefandi og skemmtilegt að fá tækifæri til að skapa persónulega dagbók, fylla hana af draumum og ásetningi. Frábærlega hlý og gefandi kennsla. Namaste.
Heilandi og nærandi námskeið. Frábær og reynslumikill kennari sem miðlaði efninu á góðan hátt. Mæli tvímælalaust með þessu námskeiði.
Námskeiðið var virkilega lærdómsríkt og skemmtilegt þar sem hugleiðslu og leik að málningu var fléttað saman í tveggja daga vinnu. Hópurinn var leiddur í hugleiðslu þar sem við áttum að finna innri röddina okkar og það sem hún hefur að segja okkur. Fyrir ferkantað fólk eins og mig sem lít inn á við eins sjaldan og ég kemst upp með þá var þetta pínulítið erfitt en óskaplega hollt og vakti mig til umhugsunar um það hvað ég er að gera í lífinu fyrir sjálfa mig og hverju ég mætti bæta við.
Þetta var í einu orði sagt frábær helgi! Ég er ennþá núna tveimur vikum seinna að hugsa til baka og brosa. Fyrir mig var þetta “Súper fæða fyrir sálina”. Þetta var stórkostleg reynsla sem ég á eftir að lifa á lengi. Mér þykir svo vænt um og er svo stolt af málverkinu sem ég gerði á námskeiðinu. Öll táknin sem komu til mín í hugleiðslunni með Kristínu Bertu eru ýmist á yfirborðinu eða í öðrum lögum myndarinnar. Svo skemmtileg reynsla. Meiriháttar skemmtileg helgi með frábærum konum. Sannkölluð Súperfæða fyrir sálina, ég hefði ekki viljað missa af þessu.
Listsköpun með ásetningi býður upp á endalausa möguleika til listsköpunar og sjálfsstyrkingar. Röddin er námskeið þar sem þú ferð inn á við og skoðar hvernig þú talar til þín. Þú veltir fyrir þér hvenær þessi innri rödd hætti að þjóna þér og fór að tala gegn þér, draga úr þér og jafnvel tala niður til þín. Þú ert leidd/ur í sjónsköpun og gefur þinni innri rödd andlit á striganum og skoðar hvað það er sem þú vilt í raun og veru segja sjálfri/um þér. Þú færð leiðbeiningar um hvert skref.
Þegar við sköpum með ásetningi getum við fléttað saman gamni og alvöru. Hér er stórskemmtilegur vinahópur á ferð sem tengist í gegnum yoga. Við máluðum í 3 klukkustundir á fallegum stað úti á landi. Ásetningurinn tengdist líkamanum og yogatímum sem hópurinn hefur verið í saman. Eftir stutta hugleiðslu máluðum við fæturnar á okkur á einfaldan hátt svo enginn þyrfti að óttast neitt og allir gætu tekið þátt. Mér finnst fátt skemmtilegra en að sjá andlit fólks ljóma við það að fá að mála og þennan dag heyrði ég ítrekað “þetta er svo gaman....ég hef ekki málað síðan ég var krakki”.
Þegar ég fór að mála fyrir ferlið sjálft en ekki útkomuna þá gef ég mér oftar tíma til að mála eingöngu til þess að njóta. Bara til að sitja í kyrrð með liti. Það þýðir að það er engin krafa um að eitthvað stórkostlegt komi út úr því sem að ég skapa. En hvað er stórkostlegra en að skapa ró, kyrrð, frið og gleði með sjálfum sér?